þriðjudagur, 10. mars 2009

Árshátíð

Nú er Árshátíð Símans yfirstaðin, sem er bara gott og blessað. Við skelltum okkur á hana. Fyrst var farið upp í Grafarvog í fyrirpartý, þar sem rennt var niður bjórum og svona glimrandi góðum brauðréttum sem Sif, gestgjafinn, var með. Mjög gott, langar helst í svona núna...

Árshátíðin var svo haldin á Listasafni Reykjavíkur, það voru allskyns smáréttir í boði, áfengi og fullt af skemmtiatriðum. Ég missti nú bara af öllum skemmtiatriðunum, var bara að gera eitthvað annað, það vill nú gerast að ég missi af þessum atriðum. Held ég hafi verið uppi við barinn með Hrafnhildi og/eða Ollý. Jæja, skiptir ekki máli, nema hvað skemmtiatriðin voru nú bara svakaleg. Þemað var karnival og eitthvað var um loftfimleika þarna. Sá það á myndum inn á fésbókinni. Svo var líka Buff að spila, nema það fór líka fram hjá mér. Skil þetta nú bara ekki, ég hef greinilega ekkert verið inn á dansgólfrýminu allt kvöldið. Það er svona þegar áfengi er við höndina, fólkið er mun meira spennandi en einhver skemmtiatriði!

Ég varð auðvitað að vera í svaka hælum við kjólinn minn, nema ég gat ekki gengið heim eftir árshátíðina. Ég var eins og mjaðmaveikur eldri borgari, kjagaði einhvernveginn áfram og það líka löturhægt. Svei mér þá að ég fer ekki í þessum skóm á djammið í bráð!

En þar sem maður er svo forsjáll (eða hitt og heldur) þá gleymdist að taka mynd af okkur hjúunum í dressinu, nema bara sitjandi. Þannig þetta er eina ágæta myndin af okkur:

Hún er alveg ágæt bara, helst mætti brosið mitt vera minna og Sigþórs meira.

Í dag sá ég grá hár á honum Simba mínum. Litla kisukrúttið mitt er komin með grá hár!!! Hvernig stendur á því, hann er bara að verða 28 ára í mannsárum! Gæti reyndar verið að þetta séu bara hvít hár, en hef aldrei séð svoleiðis áður, þannig ég held þetta séu grá hár. En núna hrýtur hann upp í stól.

Sjáumst!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli