fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Nýtt barn

Ég eignaðist dásamlega, yndislega litla frænku í fyrradag. Tinna og maðurinn hennar voru að eignast litla stelpu á þriðjudaginn.
Ég fór í heimsókn til þeirra í gær og sá dásemdina með eigin augum og hef ekki getað hætt að hugsa um hana síðan.
Hún er lítil, mjúk með pínulítið krúttlegt nef og munn, sæta langa fingur og bara allt er sætt og krúttílegt við hana....ég held ég sé bara orðin ástfangin af henni!
Ég tók nú mynd af henni en er ekki búin að setja í tölvuna og ætla að sýna ykkur mynd sem Silja tók:

Alveg yndisleg...

Sjáumst!

mánudagur, 23. febrúar 2009

Skóli.

Nú var verkefnavika að byrja í dag í skólanum hjá mér. Hún byrjaði með svona dásamlega skemmtilegu heimaprófi, sem ég fékk tvo tíma til að gera! Ég var nú alveg fullviss um að þetta yrði nógu langur tími fyrir mig, er nú yfirleitt bara svona 1 1/2 tíma í skriflegu prófi og þetta próf er meira að segja í gegnum tölvuna! En nei...mér skjátlaðist, ég hefði betur viljað fá þrjá tíma í þetta próf. Þetta voru nefnilega 4 spurningar og maður átti að velja þrjár...sem ég auðvitað gerði og reyndi að svara eftir bestu getu. Við máttum nota bækurnar og svona, vísa í heimildir og eitthvað. Nema mér fannst sem þetta væri bara ekki nógur tími! Ég skilaði prófinu tveimur mínútum fyrir skil....aldrei gert það svona seint.

Nóg um eitthvað próf!

Ég fór og hitti svona indælar stelpur (og strák) á föstudaginn seinasta (já ég veit! hefði átt að vera heima að læra fyrir prófið í dag). Við vorum að drekka bjór og spjalla saman. En þetta voru Sara, Birna, Heiðdís og Sigursteinn. Það var mikið spjallað og sprellað en ekki fórum við niður í bæ. Það er svosum ágætt, nema hvað að ég kom bara svo full heim eftir allt þetta áfengi að dagurinn eftir var ekki eins og ég ætlaði mér.....ég tók nú einhverjar myndir. Mjög svo fáar og ekki nógu góðar, en set þær samt hér inn:


Fallegt fólk? Þið vitið alveg hverjir þetta eru.

En svo er bara skil á heimaprófi á föstudag og próf næsta þriðjudag....mega súper dúper stuð hjá mér.

Reyndar verður nú alveg örugglega stuð á föstudaginn. Anna Lilja ætlar að skella sér í bæinn og þá verður nú gaman!

Sjáumst!

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Leikhús

Ég fór í leikhús í gærkvöldi. Ég fór að sjá Kardimommubæinn og vil taka það fram að þetta var vegna skólans sem þetta leikrit var fyrir valinu. Við fengum frítt á þessa fyrstu sýningu í gegnum Barnabókmenntir. Versta er að þegar ég kom í Þjóðleikhúsið, sæti 175 í 9.röð, að ég hefði átt að hafa eitthvert barn með mér. Ég var ein, barnlaus og vinalaus, umkringd fullt fullt af foreldrum, öfum, ömmum, börnum og barnabörnum. Mér var mjög svo utangátta, passaði engan veginn inn í áhorfendahópinn...

Þetta var mjög skemmtileg sýning og gaman að vera upplifa hana með svona mikið af börnum. Þau hlógu mikið að leikritinu. Sérstaklega fannst mér skemmtilegt að sitja við hliðina á 3-4 ára gamalli stelpu. Hún hafði mikinn húmor fyrir látbragði leikaranna, hún hló meira af því heldur en því sem þeir sögðu, það var mjög fyndið. Svo í hléinu var litla stelpan að tala við pabba sinn og var að upplýsa hann um allt sem væri bannað í leikhúsi, eins og að öskra, og það má ekki setjast í hvaða sæti sem er og svona. Mjög fyndið...

Annars er nú bara verkefnavika framundan. Heimapróf á mánudaginn, skil á öðru verkefni föstudag eftir viku og svo próf þriðjudag eftir tvær vikur. Skemmtilegt...? Mér kvíðir helst fyrir heimaprófinu á mánudaginn. Þetta er þannig að það er bara opið í x langan tíma. Ég hef nefnilega aldrei tekið slíkt próf....heldur ávallt fengið verkefni sem ég hef haft viku til 10 daga að gera. En ég vona að þetta gangi vel hjá mér.

Ég er að hugsa um að fara núna út í bóksölu og kaupa litla bók sem ég get skrifað uppskriftir í. Ég var nefnilega hjá henni Birnu um helgina og þá var hún að leita að uppskriftarbókinni sinni (sem vonandi er komin í leitirnar). En í hana skrifar hún uppskriftir sem hún finnur á netinu eða fær hjá einhverjum og geymir. Mér finnst þetta svo sniðugt að ég ætla að herma eftir henni!

Í tímanum eftir hádegi hjá mér erum við að fara horfa á El Cid, vona hún verði skemmtileg. Hún er 188 mínútur og það er svo erfitt að sitja svona lengi og vera horfa kannski á eitthvað sem er leiðinlegt...


Sjáumst!

mánudagur, 16. febrúar 2009

Listi2

Þetta verður slæmur listi. Ég er að vísu ekki í fúlu skapi í dag (sem er eiginlega bara ágætt) en ætla samt að gera fúlan lista:

  • Ég er þreytt.
  • Mér er kalt.
  • Einbeiting mín er í lágmarki.
  • Ég er með harðsperrur.
  • Það er skítugt heima hjá mér og ég nenni ekki að þrífa.
  • Það er rigning.
  • Ég er að fara vinna á eftir...
  • ...og ég er svöng.
En eins og seinast, þá er þetta flest allt sem ég get lagað að sjálfsdáðum. Til að mynda get ég lagt mig í smá stund, farið í peysu til að hlýja mér. Þrifið heima hjá mér og fengið mér að borða. Þetta með harðsperrurnar, vinnuna og rigninguna get ég lítið breytt...

Vona að dagurinn ykkar er jafn fúll og minn!

Sjáumst!

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Valentínusardagur...

Það var valentínusardagur í gær sem er svosum ekkert merkilegt nema það var einnig úrslitakvöld í Euróvisjóninu Íslenska. Við skötuhjúin horfðum nú á þetta í gær, enda ekkert á leiðinni á djammið, maður verður að hvíla sig aðeins á því. Allavega, þá voru nú alveg ágætislög þarna í gær og mjög gaman að þeim "systrum" sem kynna lögin.

Besti söngvarinn er að mínu og eflaust Sigþórs mati líka, hann Edgar Smári, nema hvað hann var í tveimur atriðum; kúrekarnir og svo eiginlegt gospel atriði. Svo var þarna Ingó í veðurguðunum, einhver pía með hárkollulegt hár, Hara systur, færeyski íslendingurinn, Jóhanna Guðrún (eða Yoanna) og svo uppáhaldið mitt, lítil krúttleg stelpa að syngja lag eftir ömmu sína.

Það lag heitir Vornótt og finnst mér það langfallegasta lagið í keppninni. Rosalega krúttleg stelpa í sætum kjól að syngja lag sem amma hennar samdi. Lagið hafði svona gamaldagsbrag yfir sér sem mér finnst svo heillandi. Vornótt hefði átt að vinna að mínu mati og fara út í Eurovision keppnina, það hefðu allir heillast af þessu lagi og krúttlegu stelpunni, sem heitir svona fallegu og töfrandi nafni; Hreindís....alveg fellur það við lagið Vornótt.

Svo erum við að glápa á þetta hérna í gærkvöldi og kusum meira að segja! Talandi um að lifa sig inn í sjónvarpsefnið! Við kusum Vornótt og alveg viss um að það myndi annaðhvort vinna eða vera með þeim efstu. Svo er kosningu lokið og úrslit komin í ljós og hvað gerist?? Ingó og Jóhanna Guðrún eru tvö efstu lögin og það sem verra er vann Jóhanna Guðrún?!! Ég er ekki alveg að skilja þetta fyllilega vel. Við Sigþór fórum að velta því fyrir okkur hvort það væri kannski bara miðaldra konur að kjósa? Svona konur sem finnst Jóhanna vera svo sæt og heillandi stúlka með svona góða söngrödd....eða eitthvað. Allavega var ég stórhneyksluð og hálf móðguð að "þjóðin" hafi valið þetta lag til að fara út....

Hér er hægt að hlusta á Vornótt, lagið sem mér finnst besta lagið;

VORNÓTT

Sjáumst!

fimmtudagur, 12. febrúar 2009

Listi

Ég er að hugsa um að fara gera svona lista af og til, lista af öllu og engu, bara svona til gamans. Fyrsti listinn er listi yfir hluti, mat og allt sem mig langar í akkúrat núna:

  • Kóka kóla
  • Faðmlag
  • Lakkrís
  • Ímyndunarafl
  • Litla frænku (er að bíða eftir að systir mín eignist barnið sitt)
  • Sól og hita
  • Nýja fartölvu
  • ....og síðast en ekki síst, mega súper gáfaðan heila!!!
Þetta var stuttur og fínn listi. Það er einn hlutur af listanum sem ég get hlaupið og fengið mér strax, já það er kóka kólað sem er yfirleitt til heima hjá mér, enda mjög svo mikill fíkill á þann unaðslega drykk. Ég gæti svosum farið og faðmað Simba, þá er ég búin að fá tvennt af þessum lista...hmmm......

Ætla að deila með ykkur mynd af honum í staðinn:



Sjáumst!

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

2009

Lífið í byrjun árs 2009...hmmm....
  • frestun útskriftar
  • minna starfshlutfall
  • fleiri áfangar í skólanum
  • mótmæli á eftir mótmælum
  • bubbi syngur um byltingu vorið 2009...?
svo er eflaust eitthvað meira, þetta er bara byrjunin á árinu.

Frestun útskriftar minnar þar til í febrúar 2010 er sökum þess að meðaleinkun mín er of lág fyrir framhaldsnám, að ég þarf að taka áfanga í staðinn fyrir aðra áfanga. Þetta eru engin endalok, bara lengri tími í skólanum. Ég er nú alveg í áhugaverðum áföngum þessa önnina, Barnabókmenntir, Bókmenntir minnihlutahópa og Kvikmyndasaga. Mér finnst nú skemmtilegastur barnabókmenntir, kannski vegna þess að umfjöllunarefnið eru bækur fyrir börn! Þær eru auðlesnar og yfirleitt með einhvern auðsjáanlegan boðskap, en ég er nú ekki bara lesandi barnabækur, heldur líka fræðilegar greinar um eins og hana Grýlu og Jólasveinana...Grýla er sko ekki hress, eða var það ekki fyrst:


Svo er hún víst búin að linast og er orðin pirruð húsmóðir sem vonar innilega að börn verði óþæg svo hún geti étið þau....

Í kjölfar þess að meðaleinkunn mín er ekki nógu góð og fjölda áfanga minna þessa önn ákvað ég að minnka við mig vinnuna, í stað þess að vera í 50% vinnu fór ég í 30% vinnu. Gallinn við það að vera í 30% vinnu er að maður nennir eiginlega aldrei að fara vinna því maður vinnur svo sjaldan! Þetta er fáránlegt en svona líður mér bara....svo auðvitað þegar ég er komin í vinnuna er þetta í lagi, ég meina, ég er að vinna 4-6 tíma í einu, sem er ekki neitt!

Mótmælin á Austurvelli....ég hef ekki mætt á þau, veit ekki hvort ég eigi að skammast mín eða ekki, en málið er bara að mér finnst erfitt að vera á mótmælum og mótmæla einhverju sem ég hef ekki nægilegt vit á. Til að mynda ef ég væri spurð; af hverju ertu að mótmæla? Þá myndi ég stama út úr mér...."ríkisstjórninni?" Það vita auðvitað allir í grófum dráttum hverju mótmælt er....kannski skammast ég mín aðeins fyrir að hafa ekki mótmælt :S

Er komin bylting eða er hún á leiðinni?

Sjáumst!